*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 24. október 2019 15:34

Bílasala eykst um 14,5% á EES-svæðinu

Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir mikla þróunarvinnu í bílvélum hafa skilað sér í betri sölu.

Ritstjórn
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins,
Haraldur Guðjónsson

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að allir helstu bílaframleiðendurnir séu að ná sér á strik aftur eftir mikla þróunarvinnu og breytingar sem gerðar hafa verið á bílvélum til að uppfylla sífellt strangari mengunarstaðla. „Í fyrra minnkaði salan nokkuð hjá framleiðendum vegna bílvéla sem uppfylltu ekki alla ströngustu staðlana. Nú er uppfærslum lokið og þessir bílar að koma aftur inn á markaðinn með uppfærðum vélum með lægri útblástursgildi og enn sparneytnari vélar,“ segir María Jóna.

Nýskráningum fólksbíla í löndum Evrópusambandsins og EFTA fjölgaði um 14,5% í september miðað við sama mánuð 2018. Er ástæðan annars vegar rakin til mikillar eftirspurnar eftir bílum frá Volkswagen og Renault sem kynntu einmitt góðar afkomutölur í vikunni, hins vegar til þess að bílasala er að taka aftur við sér eftir nokkurn samdrátt sem varð haustið 2018 þegar nýskráningum fækkaði í kjölfar kynningar á nýja losunarstaðlinum WLTP. Þetta kemur fram í tilkynningu Samtaka evrópskra bílaframleiðenda, ACEA. Ísland og Búlgaría eru einu löndin innan Evrópusambandsins og EFTA sem bæta ekki við sig í nýskráningum bíla.

Að sögn talsmanns ACEA í Brussel voru nýskráningar fólksbíla á Evrópska efnahagssvæðinu um 1.285 þúsund í nýliðnum september samanborið við um 1.123 þúsund í sama mánuði 2018. Fjórir af helstu mörkuðum Evrópu, Þýskaland, Frakkland, Spánn og Ítalía, skiluðu mestum árangri í september með samanlagða 18,1% fjölgun nýskráninga miðað við sama mánuð 2018. Hinsvegar fjölgaði nýskráningum í Bretlandi aðeins um 1,3% og er ástæðan aðallega rakin til óvissunnar um BREXIT, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Fyrir einstök bílamerki má sem dæmi nefna að hjá Volkswagen jókst bílasalan um 58%, um 30% hjá Renault og 26% hjá Alfa Romeo sem er í eigu Fiat Chrysler. Hvað lúxusbíla varðar má nefna að sala Audi jókst um 39%, 9,9% aukning var hjá Mercedes-Benz og 9,3% meiri sala Volvo í september miða við sama mánuð árið á undan. Hjá BMW fjölgaði nýskráningum um 6,6% í mánuðinum.