Í nóvembermánuði seldu bílaumboð landsins 60% fleiri bíla til einstaklinga og fyrirtækja en í sama mánuði 2014. Þá seldust 456 bílar borið saman við 727 í nýliðnum mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu BL.

Í heild afhentu umboðin 14.316 bíla fyrstu ellefu mánuðina samanborið við 9.875 á sama tímabili 2014. Vöxtur bílamarkaðsins í heild nemur því um 45 prósentum það sem af er árinu.

Sé litið til bílaleiga landsins fyrstu ellefu mánuði ársins, þá hefur sala umboða til bílaleiga vaxið um 38% með alls 6.046 selda bíla samanborið við 4.385 á sama tímabili 2014.

Miðað við þá þróun sem verið hefur allt þetta ár í afhendingu á nýjum bílum til bílaleiga landsins bendir allt til þess að leigunum verði afhentir mun fleiri bílar í yfirstandandi desembermánuði heldur en í sama mánuði 2014 þegar þær keyptu 101 bíl.