„Það er alveg ljóst að í umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru athugasemdir við öll meginatriði frumvarpsins.“

Þetta segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um athugasemdir sjóðsins.

Birgir spurði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra út í athugasemdir sjóðsins á Alþing á mánudag og var henni þá ekki kunnugt um að þær hefðu borist. Á mánudagskvöld sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem fram kom að tæknilegar athugasemdir hefðu borist ráðuneytinu en sjóðurinn óskað eftir trúnaði.

Þessar athugasemdir hafa nú verið birtar opinberlega eins og greint er frá hér.

„Það eru gerðar athugasemdir við fyrirkomulag á stjórn bankans, menntunarkröfur til bankastjóra og fyrirkomulag peningastefnunefndar;“ segir Birgir.

„Þessar athugasemdir eru þess eðlis að mér finnst að menn þurfi að vinna málið alveg upp á nýtt ef ætlunin er á að annað borð að fara í gegnum þingið með breytingar á lögum um seðlabankann, með öðrum orðum þarf að skrifa nýtt frumvarp.“

Þá segir Birgir að það sé í samræmi við það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu sagt á Alþingi í vikunni.

„Við bentum á galla í frumvarpinu og að undirbúningur málsins hefði allur verið í skötulíki,“ segir Birgir.

„Það er svo annað mál að þegar maður hefur fyrir framan sig athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá skilur maður betur allan vandaræðaganginn sem hefur verið hjá forsætisráðherra út af þessu máli.“