Englandsbanki spáir því nú að hagvöxtur í Bretlandi verði 3,4% í ár í stað 2,8% eins og fyrri spá hafði gert ráð fyrir. Í frétt Wall Street Journal segir að atvinnuleysi í Bretlandi hafi farið niður í 7% í janúar, en bankinn hafði í ágúst ekki gert ráð fyrir að því marki yrði náð fyrr en að tveimur árum liðnum.

Hafa talsmenn Englandsbanka sagt að þegar 7% markinu væri náð myndi bankinn fara að íhuga vaxtahækkun. Bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, sagði þó í dag að Bretar þyrftu ekki að óttast stökk í vaxtastigi, því líklegast sé að vextir muni hækka smám saman og verði við 2%-3% markið í mörg ár.