Björgólfur Guðmundsson ýtrekaði það í Kastljósi á RÚV nú í kvöld að eignir Landsbankans dygðu, að því er hann best vissi, fyrir skuldum Icesave.

Björgólfur sagði það rangt að Landsbankinn hafi skilið þjóðina eftir í milljarða tapi en hann tók það jafnframt fram að hann tæki ábyrgð á mistökum Landsbankans, stjórn bankans hafi talið reksturinn góðann.

Björgólfur sagði að stjórnvöld á Íslandi hafi ekki stutt nægilega við bankana líkt og stjórnvöld í nágrannalöndun okkar hafi kappkostað að gera. Engir peningar hafi verið til í Seðlabankanum þegar Landsbankinn leitaði þangað eftir gjaldeyri því hafi bankinn farið í greiðsluþrot.

Aðspurður út í atburðarás síðustu daga sagði Björgólfur að setning neyðarlaganna svokölluðu hafi verið mistök. Með yfirtöku ríkisins á Glitni hafi lánalínur til bankanna lokast. Skort hafi á samvinnu Seðlabankans og viðskiptabankanna.

Varðandi peningamarkaðssjóðina sagði Björgólfur að það hafi verið trú hans að fjárfestingar í bönkum væru sterkar. Það hafi reynst rangt og að honum þætti mjög miður að heyra af fólki sem misst hafi ævisparnað sinn í peningamarkaðssjóðum Landsbankans. Hann tæki á því fulla ábyrgð.

Viðtalið við Björgólf í Kastljósinu má nálgast hér .