Björgun fjárfestingalánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac gæti kostað ríkissjóð Bandaríkjanna um 25 milljarða dala, samkvæmt útreikningum sérfræðinga í bandarískum ríkisfjármálum. Þetta kemur fram í frétt Reuters, en kostnaðurinn fellur til ef Fannie og Freddie þurfa að nýta lánalínur sem ríkið býður þeim.

Bandaríska þingið á enn eftir að samþykkja áætlanir Henry Paulson fjármálaráðherra um að bjóða lánasjóðunum Freddie og Fannie lánalínur. Paulson segist ekki telja líklegt að til þess komi að sjóðirnir dragi á línurnar, og Fjárreiðustofa Bandaríkjaþings (Congressional Budget Office) telur meira en helmings líkur á að lántökuheimildir verði ekki nýttar. Verði lántökuheimildirnar nýttar fellur þar með til nokkur kostnaður fyrir ríkissjóð Bandaríkjanna.

Tillaga Paulson um björgunaraðgerðir fyrir Fannie og Freddie hefur verið umdeild vestan hafs. Gagnrýnendur hennar segja tillöguna of opna og hún opni á möguleika á að ríkið beri of mikinn kostnað vegna Fannie og Freddie. Aðrir segja hins vegar að mikilvægt sé að tryggja stöðu húsnæðislánasjóðanna örugglega og því sé tillaga Paulson til vinnandi.