Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er bílaumboðið BL með með stærstu markaðshlutdeild hér á landi ef litið er til nýskráningar nýrra bifreiða á tímabilinu frá áramótum til lok ágústmánaðar.

Ef litið er til sölu nýrra bíla má sjá að BL er með 25,3% markaðshlutdeild það sem af er ári. Fyrirtækið er um þessar mundir með söluumboð fyrir BMW, Land Rover, Nissan, Hyundai, Subaru, Renault, Dacia, og Isuzu og hjá félaginu starfa um þessar mundir rúmlega 200 starfsmenn auk samstarfs- og umboðsaðila.

Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mikill að undanförnu en samkvæmt ársreikningi skilaði fyrirtækið um 950 milljóna króna hagnaði árið 2015 og var með 17 milljarða króna veltu, langmest allra bílaumboða hér á landi.

Viðsnúningur í rekstri fyrirtækisins er umtalsverður en árið 2013 skilaði félagið tapi upp á 469 milljónir. Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins sagði Jón Þór Gunnarsson, stjórnarformaður félagsins, helstu ástæðu bættrar afkomu fyrirtækisins vera mikla aukningu í sölu nýrra bíla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .