*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 6. ágúst 2019 19:05

Boða endurkaup hjá Heimavöllum

Stjórn Heimavalla vill að félagið hefji kaup á eigin bréfum en afskráningu félagsins var hafnað í sumar.

Ritstjórn
Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Heimavalla hyggst óska eftir að fá samþykkta heimild til kaupa á eigin bréfum og að félagið setji upp formlega endurkaupaáætlun á hluthafafundi sem boðað hefur verið til 30. ágúst. Nánari dagskrá á að kynna þremur vikum fyrir hluthafafund sem er á föstudaginn næstkomandi.

Kauphöllin hafnaði í sumar að afskrá Heimavelli úr Kauphöll Íslands þó meirihluti hluthafa félagsins hafi samþykkt beiðni um afskráningu. Kauphöllinni þótti meirihlutinn ekki nægjanlega afgerandi. Í kjölfarið hætti félagið AU 3 ehf. við kaup á allt að 27% hlut í Heimavöllum sem greiða átti allt að fjóra milljarða króna fyrir. Tilboðið var skilyrt við að afskráningin yrði samþykkt. Bókfært virði eigin fjár Heimavalla hefur verið hærra en markaðsvirði félagsins frá skráningu þess á markað í maí á síðasta ára.

Félagið boðaði í nóvember í fyrra eignasölu fyrir 17 milljarða króna á þessu ári og því næsta en á móti átti að fjárfesta í fasteignum fyrir 9 milljarða króna. Hagnaður Heimavalla nam 93 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins en félagið seldi fasteignir fyrir 3,2 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og bókfærði söluhagnað upp á 133 milljónir króna vegna fasteignasölunnar.