Sáttanefnd Ósafls og Vaðlaheiðarganga hefur fjallað um hvort verktakinn hafi gert mistök þegar stór heitavatnsæð opnaðist inn í göngin í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu sem kveðst hafa heimildir fyrir því að könnunarhola hafi ekki verið boruð þegar vatnsæðin opnaðist, en hvorki framkvæmdastjóri Ósafls né Vaðlaheiðarganga eru tilbúnir að staðfesta þetta í samtali við blaðið.

Í blaðinu kemur fram að könnunarholur séu boraðar allt að 40 metra inn í bergið ef þörf er á til þess að athuga jarðfræðiaðstæður og hættu á vatnsflæði. Gefi könnunarholurnar til kynna að þétta þurfi bergið er sementsefju dælt inn til að koma í veg fyrir leka. Þá eru boraðar fimm metra holur í stafninn og sprengt.

Innflæði heita vatnsins hefur tafið gangagröftinn nokkuð. Reiknað var með að göngin næðu í gegnum Vaðlaheiði í september næstkomandi, en það mun hins vegar ekki nást. Upphaflega áttu göngin að vera frágengin að fullu í desember 2016 og er nú líklegt að það muni frestast.