*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 11. september 2020 18:56

Bréf Bakkavarar hækkað um þriðjung

Eftir að hafa náð sögulegu lágmarki fyrr í mánuðinum hafa hlutabréf Bakkavarar hækkað um 37%.

Alexander Giess
Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Haraldur Jónasson

Í upphafi mánaðar fóru hlutabréf matvælaframleiðandans Bakkavör í sögulegt lágmark þar sem hvert hlutabréf kostaði 48,5 pund, andvirði 8.476 króna. Bréf félagsins stóðu í 66,6 pundum þegar þetta var skrifað og höfðu því hækkað um ríflega 37% frá lágpunkti. Við skráningu félagsins í kauphöll London árið 2017 kostaði hvert bréf 190 pund.

Markaðsvirði félagsins er nú um 386 milljónir punda, andvirði 67,5 milljarða króna. Til samanburðar er markaðsvirði Festi um 48 milljarðar. Ágúst og Lýður Guðmundssynir eiga 50,16% í félaginu.

Sjá einnig: Bréf Bakkavarar fallið um 50%

Gengi bréfanna hefur hins vegar dalað talsvert það sem af er ári þar sem kórónuveiran hefur haft veruleg áhrif. Í upphafi árs kostaði hvert bréf 146 pund og hefur verðið því lækkað um 54% þegar þetta er skrifað. Félagið hefur meðal annars rekið níu verksmiðjur með um 2.000 starfsmönnum í Kína, þar af var ein verksmiðja í borginni Wuhan þar sem téð veira er talin hafa átt upptök sín.

Sjá einnig: Bakkavör lokar í Wuhan

Lýður Guðmundsson og Ágúst Guðmundsson, gjarnan þekktir sem Bakkavararbræður, stofnuðu félagið. Ágúst er forstjóri Bakkavarar og Lýður situr í stjórn félagsins. Hjá samstæðunni starfa hátt í 20 þúsund manns en félagið framleiðir tilbúna rétti sem eru seldir til matvöruverslanakeðja, til að mynda Sainsbury og Tesco.