Hlutabréf bandarísku verslanakeðjunnar Bed Bath & Beyond (BBBY) hafa hækkað um meira en 40% það sem af er degi. Gengi BBBY hefur nú alls hækkað 120% í vikunni þrátt fyrir að félagið sé nú í fjárhagskröggum og mögulega á leið í greiðslustöðvun.

Forstöðumaður fjárfestinga hjá Interactive Investor sagði við Reuters að orðrómar um að BBBY, sem var vinsælt meðal dagkaupmanna á spjallborðinu /Wallstreetbets á Reddit í sumar, gæti orðið yfirtökumarkmið hafi ýtt upp gengi félagsins. Fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir félagsins hjálpi einnig til. Hins vegar séu enn líkur á að smásölufyrirtækið fari í þrot.

56 milljarða tap og 33% tekjusamdráttur

Bed Bath & Beyond birti í gær uppgjör fyrir þriðja fjórðung fjárhagsársins 2022, sem lauk þann 26. nóvember síðastliðinn. Sala félagsins dróst saman um þriðjung á milli ára og nam 1,26 milljörðum dala á fjórðungnum. Tap félagsins nam 393 milljónum dala eða 56 milljörðum króna.

Veltufé frá rekstri var neikvætt um meira en 300 milljónir dala, eða yfir 44 milljarða króna, á fjórðungnum og handbært fé var um 154 milljónir dala í lok nóvember.

Sue Gove, forstjóri BBBY, sagði á uppgjörsfundi í gær að félagið sé nú að ráðast í 80-100 milljóna dala hagræðingaraðgerðir, sem felast m.a. í uppsögnum.

BBBY upplýsti jafnframt um að það sé nú komið vel á veg að loka 150 verslunum. Félagið tilkynnti fyrst um lokanirnar í ágúst þegar verslanir félagsins voru fleiri en 700 talsins.

Í tilkynningu til hluthafa í síðustu viku sagðist stjórn BBBY hafa verulegar efasemdir um rekstrarhæfi fyrirtækisins og að beiðni um greiðslustöðvun væri til skoðunar. Heimildarmenn WSJ sögðu samdægurs að stjórnin væri þegar byrjuð að undirbúa umsóknina.

Hlutabréfaverð BBBY náði sínu lægsta dagslokagengi frá tíunda áratugnum í 1,31 dal á föstudaginn síðasta. Gengið stendur í 2,93 dölum þegar fréttin er skrifuð.