Rafbílaframleiðandinn Tesla verður á meðal þeirra fimm hundruð fyrirtækja sem tilheyra S&P 500 vísitölunni frá og með 21. desember næstkomandi. Í kjölfar fregnanna hafa hlutabréf rafbílaframleiðandans hækkað um tæplega þrettán prósent fyrir opnun markaða og eru nú í sögulegri hæð en hvert bréf kostar tæplega 460 dollara.

Tesla hefur hagnast á síðustu fimm ársfjórðungum en fyrirtæki þarf að hagnast fjóra fjórðunga í röð til þess að bréf félagsins geti verið skráð í téða vísitölu. Að mati S&P eru um 11 þúsund milljarðar dala af eignum sem fylgja vísitölunni. Því er líklegt að fleiri muni kaupa bréf Tesla en ella sem almennt myndi ýta undir verðhækkun.

Ekki liggur fyrir hvaða fyrirtæki verður tekið úr vísitölunni í stað Tesla. Gagnrýnendur hafa sagt að S&P sé að gera mistök með því að skrá Tesla í vísitöluna þar sem mikil áhætta fylgi fyrirtækinu.