Nýverið urðu breytingar hjá ráðgjafarfyrirtækinu Intellecta þegar Guðmundur Arnar Þórðarson, Guðni B. Guðnason og Thelma Kristín Kvaran gengu inn í hóp eigenda. Í tilkynningu frá Intellecta segir að breytingarnar endurspegli þörf markaðarins fyrir aukinni ráðgjöf tengdri stjórnun, upplýsingatækni og stjórnendaráðningum.

Þrjú ný inn í eigendahóp

Þeir Guðmundur og Guðni eiga að baki langan feril innan upplýsingatækniráðgjafar. Guðmundur Arnar var ráðgjafi hjá Origo, vörustjóri hjá RB og sviðsstjóri viðskiptaþróunar og ráðgjafar hjá Þekkingu áður en hann hóf störf hjá Intellecta fyrir rúmu ári.

Guðmundur Arnar hefur m.a. veitt ráðgjöf og stýrt flókum verkefnum á sviði stafrænna umbreytinga og stefnumótunar og hefur verið leiðandi í ráðgjöf á því sviði.

Guðni var einn stofnenda ANZA, sem var brautryðjandi í útvistun á rekstri upplýsingatækni, yfirmaður upplýsingatækni hjá Landsbankanum og ráðgjafi og eigandi hjá Deloitte. Guðni vinnur með fyrirtækjum og stofnunum við að móta nýtt stjórnskipulag í upplýsingatækni og stýrir ráðgjöf og innleiðingu á sjálfvirkni með róbótavæðingu (robotics).

Thelma Kristín hefur starfað hjá Intellecta um nokkurra ára skeið, sem stjórnendaráðgjafi og sérfræðingur í ráðningum. Hún vinnur með stjórnum, stjórnendum og hæfnisnefndum að ráðningum lykilstjórnenda og sérfræðinga, en auk þess er hún helsti sérfræðingur Intellecta í opinberum ráðningum. Áður en hún hóf störf hjá Intellecta starfaði hún sem rekstrarstjóri hjá Hreyfingu og hópstjóri hjá Arion banka.

Einar Þór nýr framkvæmdastjóri

Samhliða þessum breytingum tekur Einar Þór Bjarnason við af Þórði S. Óskarssyni, stofnanda Intellecta, sem framkvæmdastjóri. Þórður mun áfram sinna ráðgjafaverkefnum á sviði ráðninga og stjórnunar. Einar Þór hefur starfað með Þórði í ráðgjöf síðan 2001 og verið einn af eigendum félagsins. Einar Þór var áður ráðgjafi hjá Accenture og Adcore Strategy.

,,Það er virkilega ánægjulegt að fá þessa öflugu ráðgjafa inn í hóp eigenda Intellecta. Reynsla þeirra og hæfni mun efla okkur til að mæta vaxandi þörf íslenskra fyrirtækja og stofnana á stafrænni vegferð sinni. Leit þeirra að aukinni skilvirkni og hagræðingu er ákafari sem lýsir sér m.a. í aukinni eftirspurn eftir faglegum ráðningum og frekari hagnýtingu upplýsingatækni." segir Einar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri Intellecta í tilkynningu.

Intellecta var stofnað fyrir rúmum 20 árum og hefur frá upphafi sinnt stjórnendaráðgjöf og ráðningum stjórnenda og lykilmanna.