Bandaríska fjárfestingarfélagið Briarwood Capital Partners LP er komið með 3,7% hlut í Icelandair og er nú þriðji stærsti hluthafinn, samkvæmt uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa flugfélagsins. Briarwood á alls rúmlega 1,5 milljarð hluta í Icelandair sem er tæplega 3,2 milljarðar króna að markaðsvirði.

Félagið er þó í raun næst stærsti einstaki fjárfestirinn í Icelandair. Næst stærsti hlutahafi félagsins er Arion banki en sá hluti er væntanlega að mestu í eigu viðskiptamanna bankans, t.d. í gegnum framvirka samninga eða safnreikninga.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá bættist Briarwood við lista yfir stærstu hluthafa flugfélagsins í þar síðustu viku og fór þá með 1,7% hlut. Í síðustu viku bætti fjárfestingafélagið við sig 1% og hefur haldið áfram á sömu braut undanfarna daga. Á þessum skamma tíma hefur félagið því bætt við sig tæplega 2% hlut í Icelandair.

Á heimasíðu Briarwood segir að félagið fjárfesti á ýmsum sviðum, þar á meðal í samgöngum, innviðum, flugiðnaði, framleiðslufyrirtækjum, fyrirtækjum sem sinna vöruferilsstjórnun og endurvinnslu. Jafnframt er talað um að félagið fjárfesti yfirleitt á Bandaríkjamarkaði.

Í kjölfar fjárfestingar Briarwood eru nú fjögur bandarísk fjárfestingarfélög meðal tuttugu stærstu hluthafa Icelandair. Þau eiga samtals 23,3% hlut í flugfélaginu.

Bain Capital varð stærsti hluthafi Icelandair í júní 2021 og fer nú með 17,2% hlut. Þá keypti Miri Capital Management nýlega 1,5% hlut í Icelandair. Auk þess er sjóðurinn SFC Foresta Master Fund L.P, í stýringu vogunarsjóðsins Stone Forest Capital, með 0,9% hlut.