Century Aluminum tapaði 60,7 milljónum dollara (3,6 milljörðum króna) á öðrum ársfjórðungi en hagnaðist um 45,8 milljón dollara (2,7 milljarða króna) á sama tíma fyrir ári.

"Afkoman er töluvert verri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir," segir greiningardeild Landsbankans, "en þeir höfðu spáð því að félagið skilaði meiri hagnaði en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs."

Rekja má lélega afkomu meðal annars til þess að gjaldfæra þurfti 125,1 milljón dollara (7,5 milljarða króna) vegna framvirka samninga. Er það vegna afleiðusamnings sem félagið gerði árið 2005 til að tryggja söluverð á álframleiðslu sinni en vegna hækkandi álverðs hefur samningurinn þróast Century í óhag, að sögn greiningardeildarinnar.

"Sala félagsins jókst um 14,3% miðað við sama tímabil á síðasta ári og um 3,7% miðað við fyrsta ársfjórðung."
Stækkun álversins á Grundartanga er á áætlun. "Century hefur jafnframt skrifað undir samning við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um öflun raforku fyrir fyrirhugað álver í Helguvík. Samningurinn hljóðar upp á raforku fyrir um 250.000 tonna álframleiðslu," segir greiningardeildin.

Gengi Century lækkaði um 5,3% í íslensku kauphöllinni í dag.