Covid reyndist OZ erfitt á árinu 2020 og varð hugbúnaðarfyrirtækið fyrir nokkru tekjutapi af völdum faraldursins. OZ þjónustar einkum íþróttadeildir og viðburði, starfsemi sem hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum í faraldrinum.

Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2020 var tap af rekstri félagsins eftir afskriftir, fjármagnsliði og skatta 73,3 milljónir króna. Í samanburði var hagnaður af rekstri félagsins  um 2 milljónir króna á árinu 2019, líkt og kom fram í Viðskiptablaðinu í byrjun árs 2021.

Tekjufall félagsins milli ára nam 30% þar sem rekstrartekjur félagsins minnkuðu úr 494 milljónum króna í 378 milljónir króna, en þar af nam seld þjónusta 186 milljónum og styrkir 192 milljónum.

Sjá einnig: Oz fær 326 milljóna styrk

Eignir félagsins í árslok 2020 námu 238,7 milljónum króna og eigið fé neikvætt sem nemur 58,6 milljónum króna. Laun- og launatengd gjöld félagsins hækkuðu auk þess um 30% en meðalfjöldi starfsmanna fjölgaði úr 10 í 12 milli ára.

Í ársreikning félagsins segir að sýn þess sé að „opna nýjan afþreyingarheim tengdan íþróttum með því að upphefja deildir og mót með nýstárlegum frásagnastíl og notendaupplifun. Félagið hefur meðal annars unnið að þróun kerfis sem gæti nýst sem myndbandsaðstoðardómari, eða hin svokallaða VARsjá, en Vísir greindi frá þessu í fyrra.