*

föstudagur, 18. október 2019
Frjáls verslun 12. mars 2019 07:30

Dýrkeypt að gera mistök í ráðningum

Fyrirtækið Hagvangur á rætur að rekja til ársins 1971 en ráðningarþjónustan tók til starfa árið 1978.

Sindri Freysson
Katrín segir að vinnubrögð við starfsmannaleit og ráðningar hafi gjörbreyst hérlendis á undanförnum árum og áratugum og séu nú fyllilega sambærileg við það besta sem gerist annars staðar í heiminum.
Haraldur Guðjónsson

Katrín S. Óladóttir, annar eigenda ráðningafyrirtækisins Hagvangs, segir ótal margt hafa breyst á þeim áratugum sem eru liðnir síðan hún kynntist þessum geira, meðal annars hvernig fólk kemur sér á framfæri á samskiptamiðlum, en viðvera þeirra þar og „fótspor“ geta haft áhrif á starfsvonir þess.

„Fólk í dag er auðvitað miklu opnara fyrir samskiptamiðlum, hvort sem það er Facebook eða LinkedIn eða annað, en þó má segja að þetta skiptist í tvo hópa. Annars vegar yngri kynslóðin sem finnst ekkert mál að leggja fram upplýsingar um sjálft sig og notar óhikað samskiptamiðlana í því skyni, og svo hins vegar fólk í stjórnunarstöðum og sérhæfðari störfum sem vill ógjarnan opinbera upplýsingar um sjálft sig hvar sem er. Það er vitað að mörg fyrirtæki skoða sína umsækjendur á samfélagsmiðlum, hvort þeir séu virkir að pósta og hverju þeir pósta, hvaða myndum eða texta, eða haga sér á miðlunum, þannig að það sem gerist í netheimum getur vissulega haft áhrif á möguleika viðkomandi á að fá starf í raunheiminum. Það má kalla þetta eitt af þeim öryggisatriðum sem eru á gátlistanum þegar verið er að sigta út umsækjendur. Það er því ekki óeðlilegt þó að æði mörg fyrirtæki athugi þetta, og það varðar ekki bara starfsráðningar heldur mörg önnur samskipti. Þá er hægt að lesa úr upplýsingunum sem þar birtast hvort viðkomandi eigi samleið með fyrirtækinu eða ekki. Þegar við erum spurð út í þetta ráðleggjum við fólki einfaldlega að vanda sig og fara varlega. Öllum ætti að vera ljóst að það sem sett er inn á Netið er þar fyrir fullt og allt.“

Hafa ráðningarferlin breyst mikið á því tímabili sem þú hefur yfirsýn yfir?
„Alveg gríðarlega og að öllu leyti til batnaðar. Það er miklu meiri vinna lögð í að skanna umsækjendur og í dag er framboðið á fólki allt annað en það var áður fyrr. Og störfin hafa sömuleiðis breyst stórkostlega mikið. Það er meiri vandi nú að gera upp á milli hæfni og þekkingar fólks og það þarf með einhverjum hætti að sannreyna þær upplýsingar sem umsækjandi setur á ferilskrána sína.“

Róbótar taka viðtöl
Hvernig sérðu fyrir þér þróunina næstu ár eða áratugi jafnvel í þessum geira?
„Á seinustu árum hafa orðið sífelldar breytingar í þessu fagi, það eru margs konar nýjungar í gangi og margar þeirra til stórra bóta. Tækninni fleygir fram og það snertir líka ráðningarferli eins og aðra þætti samfélagsins. Maður heyrir að sumstaðar erlendis séu róbótar farnir að taka viðtöl við umsækjendur og margs konar hug- og vélbúnaður er nú notaður til að kanna hæfni umsækjenda, sem er áhugaverð þróun. En ég held að það verði alltaf til staðar þörfin fyrir að vanda vel til verka þegar ráðið er í starf, því að það er svo dýrkeypt að gera mistök í ráðningum, og þá verður að treysta á reynslu og hyggjuvit þeirra sem stýra ferlinu. Það verður t.d. að hafa hugfast þegar verið er að leggja persónuleikapróf fyrir fólk, að taka tillit til fleiri þátta en tölfræðilegra. Það er vandmeðfarið að lesa úr slíkum prófum, það þarf að setja þau í samhengi og aldrei hvika frá því að skoða þau í heild sinni. Og þó að slíkt próf gefi kannski til kynna að umsækjandi henti ekki í tiltekið starf getur hann hentað mjög vel í eitthvert annað starf.“

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar um fólk á uppleið í atvinnulífinu. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi að Frjálsri verslun hér.