*

laugardagur, 16. janúar 2021
Frjáls verslun 26. desember 2020 14:02

Efnahagshorfur í heimsfaraldri

Það að leggja mat á efnahagshorfur beggja vegna Atlantsála um þessar mundir er vandasamt.

Örn Arnarson
epa

Í kjölfar þess að dregið var úr sóttvarnaaðgerðum snemmsumars í Bandaríkjunum hljóp mikill kraftur í efnahagslífið. Þannig jókst landsframleiðslan um ríflega 33% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi sem er met eins og Donald Trump, sitjandi forseti, klifaði á í kosningabaráttu sinni. Þetta met verður auðvitað skoðast með hliðsjón af þeirri staðreynd að samdrátturinn var 31,4% á fjórðungnum þar á undan.

Eins og bent er á í umfjöllun Marketwatch, systurmiðils Wall Street Journal, þá er bandaríska hagkerfið miðað við þessar mælingar 3,5% minna en það var í ársbyrjun. Þetta þýðir með öðrum orðum að umsvifin í hagkerfinu vestanhafs hafa dregist saman um 700 þúsund milljarða Bandaríkjadala eða sem nemur árlegum útgjöld stjórnvalda til hermála.

Þrátt fyrir þetta önduðu margir léttar eftir að hagtölur þriðja fjórðungs litu dagsins ljós í Bandaríkjunum. Margir sérfræðingar höfðu óttast mun verri niðurstöðu og segja má þrótturinn í hagkerfinu hafi reynst mun meiri en útlit var fyrir fyrr á árinu. Líta má á þetta sem áminningu um þann slagkraft sem er að finna í bandaríska hagkerfinu og vísbendingu um að það verði ekki lengi að komast á fullt skrið þegar kórónuveirufaraldurinn verður úr sögunni eða þá að útbreiðsla hans muni ekki halda efnahagslífinu í sömu heljargreipum og í vor.

Lúðrablástur á mörkuðum 

Þessar hagtölur ásamt þeirri staðreynd að niðurstaða forsetakosninganna í nóvember var afgerandi hvort sem litið sé til fjölda greiddra atkvæða eða kjörmanna styrktu menn í trú um að viðsnúningur í efnahagslífinu gæti verið handan við hornið. Fréttir um að prófanir þeirra lyfjafyrirtækja sem hafa verið í fararbroddi í þróun bóluefnis gegn COVID-19 sýndu fram á mikla virkni hafa ekki dregið úr þessari bjartsýni. Þetta hefur verið tilefni til lúðrablásturs á verðbréfamörkuðum í kjölfar kosninganna en eigi að síður eru óveðurský enn á lofti og óvissan mikið.

Eins og málin standa mun framþróun faraldursins ásamt niðurstöðu aukakosninga um tvö sæti í öldungadeildinni sem fram fara í Georgíuríki í byrjun janúar ráða miklu um framvinduna í efnahagsmálum vestanhafs næstu mánuði. Faraldurinn er í miklum vexti í Bandaríkjunum og þegar þetta er skrifað berast fréttir um að farið sé að reyna á þanþol heilbrigðiskerfisins og fjölmörg ríki hafa boðað að gripið verði til hertra sóttvarnaaðgerða sem munu eðli málsins samkvæmt hafa mikil áhrif á framgang mála næstu misseri.

Pattstaða í valdatafli

Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að miklar efasemdir eru um að Bandaríkjaþing geti komið sér saman á næstu vikum um efnahagsaðgerðir handa heimilum og fyrirtækjum vegna þess ástands sem nú er uppi. Þrátt fyrir að Donald Trump neiti að viðurkenna ósigur í forsetakosningunum og nánast er útilokað annað en að Joe Biden taki við embættinu næstkomandi janúar er staðan á Bandaríkjaþingi flókin. Miklar efasemdir eru um hvort að samstaða náist um efnahagsaðgerðir vegna veirubylgjunnar sem nú ríður yfir – aðgerðir sem bæði repúblikanar og demókratar eru í raun sammála um að verði að ráðast í þó tekist sé á um umfang og útfærslur – vegna stöðunnar á hinu pólitíska taflborði.

Sem kunnugt er þá héldu Demókratar meirihluta sínum í fulltrúadeild þingsins þó svo að Repúblikanar hafi unnið á í kosningunum. Hins vegar ríkir enn óvissa um sætaskipan í öldungadeildinni og það mun ekki ráðast fyrr en í janúarbyrjun þegar gengið verður til auka kosninga. Úrslitin munu ráða hvort Demókrataflokkurinn mun ráða framkvæmdarvaldinu og báðum deildum löggjafarvaldsins eða hvort repúblikanar haldi völdum í öldungadeildinni og geti þar með haft mikið að segja um stjórn landsins á næstu fjórum árum.

Eins og stjórnmálaskýrendur hafa bent á þá verður Repúblikanaflokkurinn að tryggja að stuðningsmenn Trumps í Georgíu flykkist á kjörstað þann 5. janúar. Það er útskýringin að frammámenn í flokknum hafa í besta falli þagað þunnu hljóði þegar þeir eru spurðir út í ásakanir hins fráfarandi forseta um meiri háttar kosningasvindl Demókrataflokksins og þá staðreynd að Trump neitar að viðurkenna úrslitin – að minnsta kosti þeim hluta þeirra sem lítur að forsetakjörinu.

Á meðan þessi staða er uppi verður að óbreyttu teljast ólíklegt að samstaða náist á milli flokkanna tveggja um bráðaefnahagsaðgerðir til að vega á móti ástandinu vegna kórónuveirunnar. Það kann að hafa mikil áhrif á framgang mála vestanhafs og hversu fljótt efnahagslífið í Bandaríkjunum tekur við sig á ný eftir að böndum tekst að koma á útbreiðslu faraldursins.

Staðan í Evrópu

Á árum áður var sagt að ef bandaríska hagkerfið hnerrar leggist efnahagslífið í Evrópu í flensu. Velta má fyrir sér hvort þetta eigi enn þann við í dag. Það er að segja hvort evruhagkerfið sem heild hafi einhvern tímann náð sér að fullu af skuldakreppunni sem lagðist á mörg aðildarríki myntsamstarfsins í kjölfar fjármálakreppunnar?

Áður en önnur bylgja faraldursins komst í hámæli í vetur höfðu Englandsbanki og Evrópski seðlabankinn spáð því að ekki væri von á að evrusvæðið myndi ná fyrri styrk eftir kórónuveiruna fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2021. Engar líkur væru á að það myndi raungerast ef faraldurinn færi aftur sem eldur um sinu á þessum vetri. Því miður virðist það ætla að verða raunin.

Eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn benti á í haust féll „landsframleiðsla“ Evrópu um 40% á öðrum fjórðungi vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Fallið var meira í þróuðustu hagkerfum álfunnar. Í október spáði sjóðurinn að hagkerfi álfunnar myndi dragast saman um 7% þegar árið 2020 verður blessunarlega yfirstaðið og búast mætti við kröftugum viðsnúningi strax á fyrsta fjórðungi næsta árs. Spáin gerði ráð fyrir að veirufaraldurinn myndi ekki breiðast út í vetur með þeim hætti sem Evrópumenn standa nú frammi fyrir.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók fram í októberskýrslu sinni að efnahagsástandið hefði orðið enn verra ef ekki komið til kröftugra mótvægisaðgerða Evrópuríkja, þar með talið á vettvangi Evrópusambandsins auk þess sem Evrópski seðlabankinn greip til allra mögulegra úrræðna til þess að vinna gegn niðursveiflunni vegna veirunnar og sóttvarnaaðgerða. Virðist sem svo að valdamenn í álfunni hafi dregið einhvern lærdóm af viðbrögðum sínum í fjármálakreppunni 2008 í þeim efnum.

Stóra spurningin er hvort það sama verði upp á teningnum ef allt fer á versta veg á ný. Þrátt fyrir að gripið hafi verið til stuðnings á vettvangi Evrópusambandsins handa þeim ríkjum sem urðu verst út úr faraldrinum síðasta vetur þá var ekki einfalt mál að ná samstöðu um þær aðgerðir.

Nánar er fjallað um málið tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér.

Stikkorð: Efnahagshorfur