Nýi lýð­ræðis­flokkurinn í Grikk­landi, sem hefur stýrt landinu síðan 2019, vann sigur í þing­kosningum í gær. Flokkurinn, sem fékk 41% at­kvæða, náði þó ekki hreinum meiri­hluta á gríska þinginu og verður því boðaði til nýrra kosninga eftir mánuð.

Talið er lík­legt að flokkurinn muni þá ná meiri­hluta í þinginu með svipuðum niður­stöðum.

Kyri­a­kos Mit­sotakis, for­sætis­ráð­herra Grikk­lands, fer fyrir flokknum en talið er að efna­hags­leg upp­sveifla síðustu mánaða hafi skilað sigrinum. Vinstri flokkurinn Syriza fékk 20% at­kvæða og miðju-vinstri flokkurinn Pasok fékk 11,5% at­kvæða.

Samsteypustjórn ólíkleg

Vegna breytinga á kosninga­lögum Grikk­lands þarf hreinan meiri­hluta á gríska þinginu og því þarf Mt­sotakis annað hvort að mynda sam­steypu­stjórn eða boða til nýrra kosninga. Að öllum líkindum verður síðari kosturinn fyrir valinu.

Árangur Nýja lýð­ræðis­flokksins í kosningunum var mun betri en kannanir gerðu ráð fyrir en ljóst er að kjós­endur vildu halda á­fram á þeirri veg­ferð sem landið hefur verið á á síðustu árum.

Mats­fyrir­tækið S&P hækkaði ný­verið láns­hæfis­ein­kunn gríska ríkisins úr rusl­flokk í fjár­festingar­flokk, en skulda­bréf gríska ríkisins hafa verið í rusl­flokki frá árinu 2010.

Það hefur haft í för með sér hærri fjár­magns­kostnað og var Seðla­banka Evrópu auk þess bannað um tíma að kaupa grísk skulda­bréf. Þá var gríska ríkið á barmi gjald­þrots í byrjun árs 2012 og var lengi vel kallað eftir úr­sögn Grikk­lands úr ESB vegna gegndar­lausrar skulda­söfnunar.

Nú horfir hins vegar til bjartari tíma, en S&P hefur ný­lega breytt horfum landsins úr stöðugum í já­kvæðar. Ferða­þjónustan, stærsta út­flutnings­stoð landsins, hefur farið kröftug­lega af stað eftir far­aldur og mældist hag­vöxtur í Grikk­landi 8,4% árið 2021 og 5,9% í fyrra. Þá hefur skulda­hlut­fallið ekki mælst lægra í rúman ára­tug.