Katrín Jakobsdóttir verðandi forsætisráðherra sagðist hafa verið að kaupa slátur út í búð rétt fyrir ríkisráðsfundinn sem hófst nú klukkan 15:00. Segist hún hafi upplifað góða stemmningu meðal landsmanna með ríkisstjórnina sem nú taki við. Segir hún ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar verða verkstjórn.

„Ég er bara hress,“ sagði Katrín á leið inn á Bessastaði þegar fréttamenn spurðu hana hvernig dagurinn leggðist í sig. „Ég var áðan að kaupa slátur bara.“ Nú er ljóst hvernig ný ríkisstjórn verður skipuð og má lesa um það á vef Viðskiptablaðsins .

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og verðandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagðist svo sem þekkja sig til í ráðherraembætti. „Ég rata svo sem,“ sagði Sigurður Ingi á leið inn á Bessastaði. Ásmundur Einar Daðason verðandi félagsmálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn tekur undir að mikið muni mæða á málaflokknum enda verði lögð aukin áhersla á hann í nýrri ríkisstjórn.

Svandís Svavarsdóttir verðandi heilbrigðismálaráðherra segist vön því að láta til sín taka í veigamiklum málum spurð út í heilbrigðismálið og stöðu málaflokksins. „Það blés líka um umhverfisráðherrann þegar ég var þar, ég kann ágætlega við þar sem blæs og gustar um,“ segir Svandís.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson verðandi umhverfisráðherra utan þings fyrir Vinstri græna, segir nýja starfið leggjast vel í sig spurður hvernig það leggist í hann að verða stjórnmálamaður, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur hann verið framkvæmdastjóri Landverndar.

Spurður hvort ekki verði erfitt að vera nú yfir opinberri stjórnsýslu hafandi verið hinum megin við borðið svarar hann: „Jú án efa mun það taka á.“ Guðmundur segist hafa þurft að hugsa sig um fyrir þessa eins og allar stórar ákvarðanir en starfið bauðst honum í gær þegar Katrín hringdi í hann. „Hún hringdi í gær, og hafði aftur samband í gærkveldi.“