European Investment Bank (EIB) bætti í gær 2,5 milljörðum króna við útgáfu sína í krónubréfum til þriggja ára, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Alls nemur þessi útgáfa á vegum EIB 4,5 milljörðum króna en fyrir hefur bankinn gefið út rúma 36 milljarða króna í 4 útgáfum. Heildarútgáfa krónubréfa er í kringum 234 milljarða króna, sem er mun meira en nokkur átti von á þegar hún hófst," segir greiningardeildin.

Það kom hlé í krónubréfaútgáfu í mars vegna gengislækkunar krónu og neikvæðrar umræðu um íslenskt efnahagslíf.

?Í maí var síðan tilkynnt um tvær útgáfur og svo aftur tvær nú það sem af er júnímánuði. Þetta bendir til að enn sé hægt að selja krónubréf til erlendra fjárfesta. Það er mun hagstæðara fyrir þá að kaupa þau nú eftir lækkun krónunnar en var á haustmánuðum í fyrra þegar útgáfan var sem mest. Ef hægt verður að sannfæra erlenda fjárfesta um að nú sé góður tími til að kaupa krónubréf má gera ráð fyrir að útgáfan haldi áfram. Það myndi styðja við gengi krónunnar á næstunni en á móti vegur þó að stór hluti þeirra bréfa sem þegar hafa verið gefin út nálgast gjalddaga á síðari hluta ársins," segir greiningardeildin.