Eimskip Flytjandi hefur tekið í notkun nýtt og sérhannað 450 fermetra hús fyrir ferskan fisk að Klettagörðum. Í húsinu er kælt rými með afar fullkominni aðstöðu til móttöku og afhendingar á ferskum fiski. Húsið hefur fengið nafnið Klettakælir.

Fram kemur í tilkynningu að Klettakælir verður að stærstum hluta nýttur fyrir móttöku á ferskum fiski frá fiskmörkuðum á landsbyggðinni sem er síðan dreift áfram til fiskkaupenda í tengslum við áætlunarflutninga Eimskips Flytjanda um allt land.  Einnig fer þar framlestun og losun á ferskfiskgámum.

„Með tilkomu hússins verður öll aðstaða varðandi lestun, losun og meðhöndlun á ferskum fiski stórbætt og  í takt við þarfir markaðarins um órofna kælikeðju og fyrsta flokks vörumeðhöndlun. Nú getum við boðið upp á órofna kælikeðju frá móttöku til afhendingar á ferskum fiski,“ segir Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá Eimskip.

Guðmundur segir meginástæður þess að ráðist var í byggingu Klettakælis þær að kröfur viðskiptavina um aukin gæði og hraðari afgreiðslu fari stöðugt vaxandi.