Hollensk samkeppnisyfirvöld greindu frá því dag að þau hefðu lagt sektir á Eimskip, Samskip og tvö önnur fyrirtæki vegna alvarlegs ólögmæts samráðs á frystigeymslumarkaðnum í Hollandi.

Heildarupphæð sektanna nemur 12,5 milljónum evra, eða 1.760 milljónum íslenskra króna. Auk fyrirtækjanna voru fimm yfirmenn í fyrirtækjunum sektaðir persónulega, en hæsta sektin á einstakling nam 144 þúsund evrum.

Brotin varða starfsemi fyrirtækjanna á árunum 2006 til 2009. Fyrirtækin áttu þá í samrunaviðræðum, en á sama tíma ræddu þau m.a. um verðlagningu og skiptu á leynilegum upplýsingum sem vörðuðu samkeppnishagsmuni. Samkeppniseftirlitið í Hollandi taldi að þessar aðgerðir hefðu hindrað virka samkeppni á markaði.

Fyrirtækin sem um ræðir eru Eimskip, Kloosbeheer, Samskip og Van Bon (sem heitir nú H&S Coldstores). Kloosbeheer hefur játað sekt sína og aðstoðaði við rannsókn málsins og var sekt fyrirtækisins því lækkuð um 10%. Sektir fyrirtækjanna eru á bilinu 450 þúsund evrum og upp í 9,6 milljónir evra.

Samskip gaf út yfirlýsingu í morgun þar sem kom fram að þeir væri að undirbúa aðgerðir á hendur Kloosbeheer.  Í yfirlýsingunni segir að ástæða aðgerða Samskipa er sá skaði sem Samskip varð fyrir á þeim tíma sem frystigeymslan Klosterboer IJmuiden var í eigu Samskipa. Samskip keyptu IJmuiden frystigeymsluna af Kloosterboer fjölskyldunni árið 2005 en seldu fjölskyldunni hana til baka árið 2009.