Nýir eigendur Póstmiðstöðvarinnar eru Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, Halla Sigrún Hjartardóttir, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, og Kári Þór Guðjónsson. Þá á félag Malcolm Walker, forstjóra bresku matvöruverslunarinnar Iceland, og meðfjárfestir hans, hlut í Póstmiðstöðvinni. Einar Örn greindi frá því í síðustu viku að hann hafi sagt upp sem forstjóri Skeljungs . í samtali við VB.is sagði hann ástæðuna fyrir því þá að nýir eigendur ætli sér að skrá Skeljung á hlutabréfamarkaði og vilji hann ekki stýra skráðu félagi .

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag í tengslum við sölu 365 miðla á rekstri Póstmiðstöðvarinnar undir lok síðasta árs. Félagið sem keypti reksturinn heitir Strahan II ehf.

Fram kemur í Morgunblaðinu að með kaupunum fylgdi dótturfélagið Póstdreifing ehf, sem m.a. dreifir Fréttablaðinu. Í janúar fékk Póstmiðstöðin nýtt nafn, P-24 ehf, og er enginn rekstur lengur í því félagi, að sögn blaðsins.