Íbúðalánasjóður vinnur að því að undirbúa útgáfu uppgreiðanlegra skuldabréfa þessa dagana. Liður í þeim undirbúningi var fjögurra tíma námskeið fyrir markaðsaðila með skuldabréf sem Brian Lancaster, prófessor í fjármálum við Stern Business School við New York University, stýrði. Fór hann þar yfir þá þætti sem hafa áhrif á verðlagningu uppgreiðanlegra skuldabréfa.

Mikilvægur undirbúningur Brian segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann telji það mikilvægt að undirbúa markaðinn fyrir væntanlega útgáfu. Hann segir væntanlega útgáfu sjóðsins ekki ósvipaða því sem bandarískar húsnæðislánastofnanir á borð við Fannie Mae og Freddie Mac geri í dag.

„Þær gefa út uppgreiðanleg skuldabréf sem leiða uppgreiðslurnar frá lántaka yfir í skuldabréfin,“ segir Brian sem telur aðstæður hér á landi góðar fyrir slíka útgáfu. Eitt atriði sem aðskilur aðstæður hér á landi og í Bandaríkjunum er að íslensk húsnæðislán eru yfirtakanleg ólíkt þeim bandarísku. Það gerir það að verkum að minna er um uppgreiðslur en annars væri. „Ég held að þar sem lánin eru yfirtakanleg þá ertu með minni veltu og minni uppgreiðslur.

Þar að auki sé ég ekki neinar stórar forsendubreytingar eiga sér stað á markaðnum. Mjög miklar verðhækkanir gætu reyndar ýtt undir uppgreiðslur eða ef miklar breytingar yrðu á framboði á húsnæðislánum þar sem slakað er á kröfum fyrir lánveitingar.“

Brian gerir ekki ráð fyrir að verðtrygging lána muni hafa áhrif á verðlagningu uppgreiðanlegra skuldabréfa á markaði. „Slíkt getur verið áhættusamara en ekki séð frá sjónarhorni fjárfesta. Það ætti ekki að hafa áhrif á verðlagningu bréfanna. Lánaáhættan sem fjárfestar standa frammi fyrir er gagnvart Íbúðalánasjóði en ekki lántakendum,“ segir Brian sem gerir ráð fyrir að aðilar á borð við lífeyrissjóði verði áhugasamir um slíka útgáfu. „Minn skilningur er sá að líftími bréfanna verði langur. Það ætti að vera góður kostur fyrir lífeyrissjóði og þá sem vilja fjárfesta í eignum með langan líftíma. Það ætti því að vera góð eftirspurn eftir bréfunum. Þau munu hafa álag ofan á ríkisskuldabréf, það gefur aukna ávöxtun sem er aðlaðandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.