Umræðu um áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar var framhaldið á Alþingi í dag. Meðal þeirra sem mældu lagafrumvarpinu í meginatriðum bót var Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.

„Haftastefnur eru oft vel meintar, en það er ekki hugurinn sem gildir þegar kemur að lagasetningu," sagði Helgi Hrafn á þinginu. „Það er ekki nóg að hafa góðan ásetning," bætti hann við, heldur skipti máli að afleiðingar af því sem lagt væri til væru raunverulega eins og til væri ætlast.

Gaman að líða eins og fullorðnum einstaklingi

Helgi Hrafn rifjaði upp í framsögu sinni þegar hann kom inn í matvöruverslun í Frakklandi. Þar hafi hann séð rauðvínsflöskur í hillum og hugsað með sér: „Æ já, ég er fullorðin manneskja, alveg rétt. Mér á að vera treystandi til að sjá áfengi án þess að ég fríki út og detti í það klukkan tvö á þriðjudegi. Hérna á íslandi má kaupa kassa af brennivíni klukkan tvö á þriðjudegi en það má ekki kaupa sér bjór klukkan níu, nema á barnum."

Helgi Hrafn telur að aukið frjálsræði með áfengisverslun muni draga úr því sem hann kallar fyllerísmenningu á Íslandi, og að sagan sýni að með tilslökunum í málaflokknum hafi áfengismenning Íslendinga batnað, þó að heildarneysla hafi aukist. Mikilvægt sé að skoða málaflokkinn heildstætt og einblína ekki á það eingöngu hversu margir lítrar af áfengi séu drukknir. „Ég lít ekki á það sem höfuðmarkmið að minnka neyslu, heldur að draga úr skaðsemi áfengisneyslu," sagði Helgi Hrafn Gunnarsson.