Nei, ég er ekki að setjast í helgan stein, bráðungur maðurinn,“ segir Þórður Magnússon léttur í bragði í samtali við Viðskiptablaðið.

Í gær var greint frá því að Þórður gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Eyri Invest eftir 23 ár hjá félaginu, en hann er 74 ára.

Þórður situr bæði í stjórnum félaga á vegum Eyris en einnig öðrum félögum. Spurður hvort breytingar séu í vændum hvað það varðar segir hann: „Stjórnarsetu minni er ekki lokið með þessu, en það eru sjálfstæðar ákvarðanir þessara félaga á hverjum tíma hvernig það fer.“ 

Endurnýjun nauðsynleg hverju félagi

„Meginástæðan er sú að það er þannig í öllum félögum að það þarf að eiga sér stað endurnýjun,“ segir Þórður þegar hann er spurður hvað komi til að hann sækist ekki eftir endurkjöri hjá Eyri Invest.

„Það er mjög gott og nauðsynlegt að hún eigi sér stað. Það verða líka töluverðar breytingar í stjórnendateymunum eins og hefur komið fram. Það er mjög gott að staldra við og tryggja bæði endurnýjun og samfellu í því sem er verið að gera. Það er hvort tveggja nauðsynlegt,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við Þórð í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út fimmtudaginn 27. apríl.