Seðlabankinn keypti gjaldeyri fyrir 1,3 milljarða króna á mánudaginn og fyrir 2,1 milljarða á þriðjudaginn. Þetta hefur þýðingu þar sem um er að ræða fyrstu viðskiptadagana eftir að bankinn setti bindiskyldu á nýtt innflæði erlends fjármagns, sem ætlað er að fæla skammtímafjárfesta frá landinu.

Undanfarin misseri hefur Seðlabankinn keypt verulegan hluta þess gjaldeyris sem seldur hefur verið á innlendum gjaldeyrismarkaði, meðal annars til að styrkja gjaldeyrisforðann í aðdraganda að afnámi hafta en einnig til að bregðast við innflæði erlends fjármagns á markaðinn með ríkisskuldabréf.

Tölur um kaup bankans á gjaldeyri á mánudag og þriðjudag benda ekki til verulegs viðsnúnings í flæði fjármagns til landsins í kjölfar hinna nýju reglna, sérstaklega þar sem gengi krónunnar hefur haldist svo til óbreytt.

Ávöxtunarkrafa langra ríkisskuldabréfa hefur lækkað um 8-12 punkta í dag. Fyrstu þrjá daga vikunnar hækkaði ávöxtunarkrafa þessara flokka um 30-50 punkta og mátti rekja þá hækkun að miklu leyti til hinna nýju reglna.