*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 17. desember 2018 08:35

Enn stefnir í minni framleiðslu

Leiðandi hagvísir Analytica bendir til minnkandi framleiðslu eftir 6 mánuði, 11. mánuðinn í röð.

Ritstjórn
Yngvi Harðarson er forstjóri Anaylitica sem gefur út hagvísinn.
Haraldur Guðjónsson

Í nóvember, ellefta mánuðinn í röð, lækkar leiðandi hagvísir Analytica, en hann gefur vísbendingu um framleiðslu hálft ár fram í tímann. Þessi þróun ber vott um óvissu um efnahagsþróur framundan í landinu að því er segir í fréttatilkynningu frá Yngva Harðarssyni, sem rekur ráðgjafastofuna Analytica.

Í þetta sinn lækka allir sex undirliðir hagvísisins, frá því í október, en mesta framlagið til lækkunar kemur frá debetkortaveltunni og væntingavísitölu Gallup.

Enn er þó langtímaleitni mikilvægra undirþátta enn sterk up á við, en nokkur óvissa er í ferðaþjónustu og auðvitað kjaramálum. Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti, einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Vísitalan byggir á þeirri hugmyndi að framleiðsla hafi aðdraganda, en svipaðar vísitölur eru reiknaðar fyrir flest iðnríki heims til að veita vísbendingar um þróun framleiðslu.

Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í nóvember lækka fjórir af sex undirþáttum frá fyrra ári.