Í lok októbermánaðar nam eign erlendra fjárfesta í íslenskum ríkisverðbréfum tæplega 52 milljörðum króna. Í upphafi árs nam sú fjárhæð 90 milljörðum en tæplega 72 milljörðum í lok júlímánaðar.

Erlendir fjárfestar hafa því selt ríkisskuldabréf fyrir tuttugu milljarða á þremur mánuðum og hefur eign þeirra því dregist saman um 28% á því tímabili. Þetta er meðal þess sem lesa má úr markaðsupplýsingum ríkisins.

Í lok október nam nafnverð útgefinna ríkisskuldabréfa 666 milljörðum króna. Þar af voru 249 milljarðar í eigu lífeyrissjóða og 126 milljarðar í eigu banka og sparisjóða. Einstaklingar áttu ríkisskuldabréf fyrir um tíu milljarða. Í lok júlí á þessu ári nam nafnverð útgefinna ríkisskuldabréfa 600 milljörðum króna.

Ríkissjóður lauk við sex útboð ríkisbréfa í október og safnaði alls 30 milljörðum króna vegna útboðanna. Í sama mánuði fyrir ári síðan voru útboðin fjögur þar sem ríkissjóður safnaði 10 milljörðum. Í júlímánuði á þessu ári hélt ríkissjóður þrjú útboð og fékk 26 milljarða króna vegna þeirra.

Seðlabankinn bregst við brotthvarfi erlendra fjárfesta

Fyrr í mánuðinum greindi Fréttablaðið frá því að eign erlendra fjárfesta í íslenskum ríkisverðbréfum í krónum væri líklegast í sögulegu lágmarki. Enn fremur að áður stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa, BlueBay Asset Management, hefði selt nær alla sína stöðu, nærri 50 milljarða króna.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að miklar gjaldeyrissveiflur síðustu mánuði séu líklega tilkomnar að stórum hluta vegna sölu erlendra fjárfesta á ríkisskuldabréfum.

„Þegar svoleiðis stendur á og markaðurinn er veikur fyrir, þá finnst mér eðlilegt að Seðlabankinn komi á móti,“ sagði Jón Bjarki. Þar vitnar hann í 55 milljarða króna gjaldeyrissölu Seðlabankans sem átti sér stað á einum og hálfum mánuði.