EFTA-dómstóllinn mun á næstunni taka fyrir tvö mál er varða verðtryggingu íslenskra neytendalána. Meðal annars er spurt hvort bankar megi miða við 0% verðbólgu við útreikninga á lánum.

Munnlegur málflutningur í tveimur dómsmálum er varða verðtryggð neytendalán verða tekin fyrir á næstunni. Annað málið er á dagskrá 9. apríl en hitt verður að öllum líkindum tekið fyrir í byrjun sumars.

Sex spurningum hefur verið beint til EFTA-dómstólsins og í stórum dráttum fjalla þær um það hvort verðtryggð íslensk lán standist Evrópurétt.

Niðurstaðan getur sem dæmi orðið sú að verðtryggð lán séu ólögleg eða lánssamningar séu gallaðir vegna ófullnægjandi upplýsinga til neytenda. Íslensk heimili eru með tæpa 1.200 milljarða í verðtryggðum lánum hjá bönkum.

EFTA-dómstóllinn gefur ráðgefandi álit í þessum málum en  eftir það verða þau flutt fyrir íslenskum dómstólum. Engin fordæmi eru fyrir því að ekki sé farið eftir slíkum álitum enda myndi slíkt í raun jafngilda uppsögn á EES-samningnum að sögn Einars Páls Tamimi. Einar Páll er lögmaður Gunnars V. Engilbertssonar gegn Íslandsbanka en það mál verður tekið fyrir 9. apríl.

Hitt málið höfðaði Sævar Jón Gunnarsson gegn Landsbankanum. Í því máli er spurt fimm sömu spurninga og í máli Gunnars en til viðbótar er ein spurning sem að sögn Björns Þorra Viktorssonar, lögmanns Sævars Jóns, er gríðarlega mikilvæg.

Spurt er hvort það samrýmist Evrópurétti að við útreikninga á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántakaanda við samningsgerðina, sé miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi.

"Þegar verið er að veita verðtryggt lán þá á lánveitandinn að miða við gildandi verðbólgu á lántökudegi alveg eins og þegar hann miðar við gildandi vexti þó þeir séu breytilegir. Ef lánveitandi telur sig ekki þurfa að upplýsa um kostnað vegna verðtryggingar afhverju þarf hann þá yfir höfuð að vera að upplýsa eitthvað um vextina. Afhverju má hann þá ekki bara miða við 0% vexti, það er alveg jafn gáfulegt."

Fyrir mánuði síðan ákvarðaði Neytendastofa í mali þar sem miðað avar við 0% verðbólgu í lánssamningi íslandsbanka. Niðurstaða Neytendastofu var sú að bankinn hefði brotið lög.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .