Fyrir níu árum stofnuðu hjónin Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Pálsson Farmers Market. Á þessum níu árum hefur fyrirtækið verið rekið réttu megin við núllið og selur vörur sínar í um 40-50 verslunum erlendis.

Á fundi Arion banka snemma á þessu ári var Jóel með erindi þar sem fjallað var um hugmyndafræðina á bak við Farmers Market og fyrstu árin hjá sprotafyrirtækinu. Í erindi sínu tók hann fram að oft tækju þau ákvörðun um að ekki væru gerð of mörg eintök af tiltekinni flík.

„Við erum kannski dálítið furðuleg, þetta gætum við líklega ekki gert ef við værum með fjárfesta með okkur. Við höfum verið svo heppin að sumar flíkur verða ofboðslega vinsælar og við sjáum þær víða. Þá tökum við ákvörðun sem sumum þykir einkennileg og segjum nóg komið af þessari flík. “

Ítarlegt viðtal við Jóel og Bergþóru má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .