*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 20. mars 2019 12:29

ESB sektar Google um 1,7 milljarða dollara

Evrópusambandið hyggst sekta Google fyrir hindra samkeppni á markaði auglýsinga á netinu.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Google í Kaliforníu fylki Bandaríkjanna.

Framkvæmdastjóri samkeppnismála Evrópusambandsins, Margreth Vestager, tilkynnti í dag að Google yrði sektað um 1,7 milljarða dollara, jafngildi tæplega 200 milljarða króna, fyrir að hindra samkeppni í birtingu auglýsinga á netinu. 

Í tilkynningu um ákvörðunina segir að Google hafi krafist þess í samningum við auglýsendur að þeir birtu ekki auglýsingar sínar hjá öðrum leitarvélum en sínum eigin. Margreth Vestager sagði á blaðamannafundi í Brussel að með þessu hafi Google komið í veg fyrir sanngjarna samkeppni á markaði með auglýsingar á netinu, 

„Google hefur tryggt yfirburðastöðu sína sem leitarvél og varið sig fyrir samkeppni með því að þvinga aðila til að gangast undir samninga sem hindri samkeppnis frá þriðja aðila. Þetta er ólöglegt skv. samkeppnislögum Evrópusambandsins,“ sagði Vestager.

Kent Walker, framkvæmdastjóri alþjóðamála hjá Google, sendi frá sér stutta yfirlýsingu í kjölfar niðurstöðu Evrópusambandsins þar sem hann segir félagið alltaf hafa verið sammála um að heilbrigði samkeppni væri öllum til góða. „Við höfum nú þegar gert miklar breytingar til að koma til móts við áhyggjur framkvæmdastjórans. Á næstu mánuðum munu við gera ennfrekari breytingar til að gera keppinauta okkar sýnilegri í Evrópu,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Walker. 

Auglýsingatekjur Google á fjórða ársfjórðungi 2018 jukust um 20% miðað við sama ársfjórðung 2017 upp í 32,6 milljarða dolla, jafngildi tæplega 4.000 milljarða króna. Skv. Evrópusambandinu var markaðshlutdeild Google á árabiliinu 2006-2016 á markaði með auglýsingar á netinu 70%. 

Stikkorð: Google evrópusambandið