„Við eigum ekki annan valkost en að fækka í liðinu, þó að slíkt leiði til þess að öryggi á svæðinu skerðist. Nú þegar er embættið komið talsvert fram úr fjárhagsáætlun og á því verður að taka,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi í samtali við Morgunblaðið í dag.

Í fréttinni kemur fram að lögreglumönnum á Selfossi fækki frá og með haustinu um þrjá. Ekki verður ráðið í þeirra stað og þannig ætla stjórnendur Selfosslögreglunnar að spara. Embættið er nú þegar komið um 11 milljónum króna fram úr áætlunum. Við því verður að bregðast svo ársuppgjör standi á pari við fjárlög, en samkvæmt þeim eru embættinu eyrnamerktar 260 milljónir króna.

Í Morgunblaðinu segir einnig að uppsafnaður hallarekstur lögreglunnar á Selfossi eftir síðasta ár sé 26 milljónir króna og skýrist hann að mestu af veikindum starfsmanna um lengri tíma. Þegar best lét voru fimm menn á fjórum vöktum Selfosslögreglunnar. Frá komandi hausti verða hins vegar aðeins þrír menn á þremur vöktum og fjórir á einni. Menn verða teknir inn á aukavaktir t.d. á álagstímum um helgar en reynt að halda því í lágmarki.