Gerð hefur verið hagkvæmniathugun á því hvort það borgi sig að hefja á ný farþegasiglingar á milli Akraness og Reykjavíkur. Slíkar siglingar lögðust af þegar Akraborginni var lagt með tilkomu Hvalfjarðarganganna árið 1998. Þetta kemur fram á vef Skessuhorns.

Bergþóra Bergsdóttir, starfsmaður Faxaflóahafna, gerði athugunina og er helsta niðurstaðan sú að farþegasiglingar standi ekki undir sér nema til komi niðurgreiðsla af hálfu utanaðkomandi aðila. Í hagkvæmniathuguninni var gert ráð fyrir að keyptur yrði hraðskreiður bátur sem tæki 65 farþega og sigldi milli Akraneshafnar og Reykjavíkurhafnar.

Talið er að það tæki um 30 mínútur að sigla þessa leið og að siglingin yrði valkostur fyrir þá sem vildu fremur sigla en keyra á milli staðanna á einkabíl eða ferðast með strætó.