Hluta- og sameignarfélögum í meirihluta eigu ríkissjóðs (E-hluta) hefur fjölgað um þrjú frá árinu 1998. Í árslok 1998 var langumfangsmesti ríkisreksturinn hjá Landsvirkjun, Landssímanum og viðskiptabönkunum. Eigið fé allra félaganna nam 74,1 milljarði króna í árslok 1998. Félögin sem eru í eigu ríksins í árslok 2006 eru með eigið fé samtals að fjárhæð 86,6 milljarða króna og jafngildir það meira en 20 milljarða raunlækkun á tímabilinu.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálráðuneytisins. Þar kemur fram að verulegar breytingar hafa orðið á umfangi ríkisrekstrar, þess sem stendur utan A-hluta ríkissjóðs á undanförnum árum vegna einkavæðingar og niðurlagningar stofnana á sl. 10 árum. Tilfærslur milli flokka hafa einnig haft áhrif. Fyrir gildistöku fjárreiðulaganna kom umfang ríkisins ekki nema að hluta til fram í fjárlögum og ríkisreikningi en þá var ekki getið um fjölda eða umfang hlutafélaga í eigu ríkisins.