Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í sjónvarpsávarpi í nótt um 30 daga ferðabann milli Evrópu og Bandaríkjanna til að reyna að hefta útbreiðslu Kórónuveirunnar. Ísland er meðal landa sem nefnt er í banninu. Ferðir til og frá Bretlandi verða hins vegar undanþegnar banninu.

Bannið tekur gildi á föstudag. Bandarískum ríkisborgurum, þeim með lögheimili í Bandaríkjunum (e. permanent residents) og fjölskyldum þeirra verður hleypt inn í landið samkvæmt yfirlýsingu frá Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna. Í yfirlýsingunni segir að þeir erlendu ríkisborgarar sem hafi verið á Schengen svæðinu, þar með talið á Íslandi, á síðustu 14 dögum áður en þeir komu til Bandaríkjanna fengju ekki inngöngu inn í landið.

Í sjónvarpsávarpi sínu sagði Trump að bannið næði bæði yfir fólks- og vöruflutninga en sagði svo í yfirlýsingu á Twitter að bannið næði ekki til vöruflutninga.

Trump gerði lítið úr útbreiðslu veirunnar framan af. Hann sakaði fjölmiðla og pólitíska andstæðinga sína um að reyna að koma höggi á sig með því að blása upp áhrif af útbreiðslu veirunnar. Svivasein viðbrögð stjórnar Trump höfðu verið gagnrýnd en hlutfallslega mun færri próf hafa verið gerð í Bandaríkjunum en víða annars staðar við veirunni. Greind smit í landinu eru orðin um 1.300.