*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 9. september 2020 11:19

Fimmtungi minni fjárfesting í íbúðum

Á öðrum ársfjórðungi ársins nam íbúðafjárfesting 35 milljörðum króna. Uppbyggingarskeið frá 2019 á pari við fyrir hrun.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fjárfest var í íbúðum fyrir ríflega 35 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en samt sem áður dróst íbúðafjárfestingin saman um 21% frá sama tíma fyrir ári að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman.

Líkir bankinn því stöðunni á íbúðamarkaði við uppbyggingarskeiðið sem var á árunum 2006 til 2008 þegar að jafnaði var fjárfest fyrir tæplega 40 milljarða króna á hverjum ársfjórðungi, miðað við verðlag 2019, þrátt fyrir að farið sé að hægja á uppbyggingunni.

Jafnframt virðist gögn um virðisaukaskattskylda veltu benda til þess að samdrátturinn í byggingariðnaði hafi byrjað fyrr en lesa megi úr íbúðarfjárfestingu, eða upp úr miðju síðasta ári. Þannig var samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi þessa árs sá mesti sem mælst hefur síðan á öðrum ársfjórðungi 2010, en samt sem áður er þetta mesta fjárfesting á stökum ársfjórðungi frá árinu 2008, utan tímabilsins frá fyrsta ársfjórðungi 2019 til 2020.

Mesta fjölgun nýbygginga en merki um mettun

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær upp úr sömu tölum Hagstofunnar var 32% fjölgun á fullgerðum íbúðum á síðasta ári frá fyrra ári og fóru þær í 3.033, sem aftur var 72% fjölgun frá árinu 2017. Á árinu 2019 var hafin bygging á 3.792 íbúðum sem er mesti fjöldi á einu ári síðan 2007, og mesta fjölgun milli ára eða 50% frá 2018 þegar hafin var bygging á 2.525 íbúðum. Í lok ársins voru 4.545 íbúðir í byggingu sem er 17% aukning frá fyrra ári.

Merki um mettun á markaði, sérstaklega fyrir nýbyggingar virðast vera að koma í ljós, m.a. með 7% lækkun verðs á seldum nýbyggingum í miðbæ Reykjavíkur milli ára. Mikil aukning hefur verið á seldum nýbyggingum hins vegar á milli ára á höfuðborgarsvæðinu, en þær voru 15% fleiri á öðrum ársfjórðungi á ár en í fyrra.

Á sama tíma hefur hægst á mannfjöldaaukingu í landinu en á öðrum ársfjórðungi fluttu einungis 25 fleiri einstaklingar til landsins en frá því sem er minnsti fjöldi síðan 2012, sem aftur gæti þýtt minni þörf fyrir aukið íbúðarhúsnæði.