Klettur hefur fest kaup á FS Mótor ehf. úr hendi Finnboga Þórarinssonar, stofnanda og eiganda fyrirtækisins. Finnbogi hefur jafnframt hafið störf á þjónustuverkstæði afl- og vinnuvéladeildar Kletts.

Finnbogi hefur starfrækt FS Mótor í meira en tvo áratugi og sérhæft sig í viðhaldi, viðgerðum og endurgerð skipa- og bátavéla. Klettur sérhæfir sig í sölu og þjónustu ýmiskonar vinnuvéla, rafstöðva, rafgeyma og fylgihluta þeim tengdum.

Að sögn Finnboga hefur hann í gegnum tíðina unnið mikið við CAT-vélar og ávallt átt mikið og gott samstarf við Klett sem og forvera fyrirtækisins, vélasvið Heklu. „Það er gott að hafa núna meira afl á bak við sig; neyðarþjónustu, sólarhringsvakt og aðgengi í lager auk þess sem það verður gott að losna við alla pappírsvinnu og þess háttar“ sagði Finnbogi.

Aðalsteinn Jóhannsson hefur verið þjónustustjóri afl- og vinnuvéladeildar Kletts sl. fjögur ár; hann segir mikinn feng í Finnboga fyrir sitt lið sem nú telur hátt í 20 manns. „Ég lít á þetta ekki ósvipað því að stýra fótboltaliði – við þurfum sterka liðsheild og öfluga einstaklinga í allar stöður. Við gerum áætlanir fram í tímann og Finnbogi er reynslubolti sem hefur lengi verið á óskalistanum hjá okkur, ég veit vel hvað hann getur og koma hans mun styrkja Klett, ekki síst hvað varðar þjónustu við fiskiskipaflotann“.