Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch telur að ekki sé hægt að treysta á að íslenska ríkið myndi veita Íslandsbanka fjárhagslegan stuðning ef bankinn lenti í vanda. Þetta kemur fram í tilkynningu sem gefin var út í tengslum við uppfært lánshæfismat Íslandsbanka.

Fitch segir að íslenska ríkið hafi látið lánadrottna íslenskra banka tapa á lánveitingum sínum og að ríkið hafi gefið út opinberar yfirlýsingar þess efnis að dreifa ætti byrðum, sérstaklega í kjölfar bankahrunsins.

Þetta veldur því að svokölluð stuðningseinkunn Íslandsbanka er sú lægsta sem Fitch gefur, eða 5. Það þýðir að mögulegt er að bankinn fái utanaðkomandi stuðning lendi hann í vanda, en að ekki sé hægt að treysta á slíkan stuðning.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær staðfesti Fitch óbreytt lánshæfismat Íslandsbanka. Lánshæfismat bankans er BBB-/F3 með stöðugum horfum.