Fitch Ratings hefur staðfest lánshæfismat ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt sem BBB+ og fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt sem A-. Lánshæfismatið fyrir skammtímaskuldbindinga í erlendri mynt er óbreytt sem F2 og landseinkunnin (e. country ceiling) er áfram BBB+. Horfur fyrir lánshæfismat á langtímaskuldbindingum eru stöðugar.

Í umsögn Fitch segir að lánshæfismat Íslands grundvallist á mjög háum þjóðartekjum á mann, og eru þær raunar um fimmfalt hærri en miðgildi þeirra landa sem eru í BBB lánshæfisflokknum. Þá sé íslenskt samfélag og stjórnarfar líkt því sem gerist í þeim löndum sem hafa hæst lánshæfismat.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins áfram háar

Fitch býst við að stöðugleikaframlög skili 490 milljörðum króna, eða 21,5% af landsframleiðslu, og hafi jákvæð áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs. Þá er búist við því að bæði gjöld og tekjur ríkissjóðs minnki sem hlutfall af landsframleiðslu á spátímabilinu. Á móti komi að spenna sé í íslenska hagkerfinu og eru opinber fjármál sögð vera þensluhvetjandi, þvert á peningastefnu Seðlabankans.

Fitch býst við því að skuldir ríkissjóðs verði 57,4% af landsframleiðslu í ár og 53,0% árið 2017. Það er hærra en miðgildi þeirra landa sem eru í BBB lánshæfisflokknum, en það er 42,7%. Þá er bent á að ríkisskuldbindingar séu umtalsverðar, einkum vegna Íbúðalánasjóðs. Fitch telur einnig að erlendar skuldir þjóðarbúsins séu umtalsvert meiri en hjá samanburðarlöndum, jafnvel þó ekki sé tekið tillit til skulda gömlu bankanna.

Í gær hækkaði Standard & Poor's lánshæfismat sitt á ríkissjóði fyrir langtímaskuldbindingar úr BBB i BBB+, eins og Viðskiptablaðið greindi frá .