Japanski fjárfestingabankinn Nomura Securities hefur viðurkennt að þeir hafi verið þátttakandi í umdeildum kaupum Goldman Sachs á skuldabréfum ríkisolíufyrirtækis Venesúela. Nam fjárfesting japanska bankans 100 milljónum dollara. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í vikunni , keypti bandaríski fjárfestingabankinn skuldabréf rískisolíufyrirtækis Venesúela á brunaútsölu, en bankinn greiddi einungis 31% af nafnvirði fyrir bréfin. Kaupinn vöktu litla hreyfingu hjá Julio Borges leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem sagði að Goldman væri að nýta sér þjáningar íbúa Venesúela til að ná í skjótfengin gróða.

Goldman Sachs hefur varið kaupin með því að segja að þeir séu að fjárfesta í Venesúela, þar sem þeir vonast til þess að ástandið í landinu batni. Í frétt Wall Street Jorunal kemur fram að sérfræðingar sem þekkja til kaupanna segja að Goldman sé að veðja á það að stjórnarbreytingar muni eiga sér stað í landinu. Bankinn telur að stjórnarbreyting geti leitt til þess að virði skuldabréfanna tvöfaldist.