Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær er alls ekki á hreinu hvaða fyrirtæki falla undir launaúrskurðarvald kjararáðs samkvæmt nýjum lögum frá Alþingi þar um. Guðrún Zoëga, formaður Kjararáðs, sagði þar að ekki væri alveg klippt og skorið hvað falli undir verksvið kjararáðs eftir lagabreytinguna. Hjá fjármálaráðuneytinu er heldur ekki óyggjandi hvernig túlka beri lögin.

Gunnar Björnsson skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu tekur undir orð Guðrúnar. Túlkun á því hvaða félög falli undir úrskurðarval kjararáðs geti í sumum tilvikum verið vafamál. Hann segir að meginreglan sé þó sú að ákvörðunarvald kjararáðs muni samkvæmt nýju lögunum miðast við félög sem ríkið yfirtekur og dótturfélög þeirra en almennt ekki félög „í þriðja ættlið” eða dótturfélög dótturfélaga.