Bandaríkjamenn munu eyða meiru í jólatrjáainnkaup í ár en þeir hafa gert frá hruninu 2008. Í frétt Bloomberg segir að bandarískir neytendur muni verja um 3,4 milljörðum dala, andvirði um 400 milljörðum króna, í jólatré. Er það aukning upp á 3,1% frá árinu 2010.

Langstærstur hluti fjárins fer í að kaupa 10 milljón gervijólatré, eða 2,6 milljarðar dala. Þá verja Bandaríkjamenn 800 milljónum dala í að kaupa 25 milljón lifandi tré, samkvæmt frétt Bloomberg. Þetta þýðir að meðalverð á hvert gervitré er um 260 dalir, eða um 31.000 krónur og meðalverð á hvert lifandi tré er um 3.800 krónur.

Undanfarin þrjú ár hefur jólatrjáasala farið stigvaxandi eftir 11% samdrátt árið 2008. Árið 2007 eyddu Bandaríkjamenn 3,5 milljörðum dala í jólatré, en 3,14 milljörðum árið 2008.