FL Group hefur lokið endurfjármögnun Refresco, leiðandi félagi í framleiðslu drykkjavara undir eigin vörumerkjum viðskiptavina (e. private label) í Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FL Group.

„FL Group leiddi hóp fjárfesta í yfirtöku á Refresco árið 2006, í samstarfi Kaupthing Capital Partners og Vífilfell, en saman vinna félögin að því að styðja stefnu framkvæmdastjórnar Refresco um frekari vöxt félagsins með yfirtökum og innri vexti,” segir í tilkynningunni.

Þá segir að á árinu 2007 hafi Refresco ráðist í fjórar yfirtökur sem gerðu félaginu kleift að vaxa á nýjum mörkuðuum, samþætta rekstrareiningar og auka við vöruúrval.

„Yfirtökur Refresco á síðasta ári voru allar fjármagnaðar í gegnum sérstakt félag, utan samstæðu Refresco en til að ná fram samlegðaráhrifum verða félögin nú hluti af Refresco og allar skuldir þess endurfjármagnaðar samhliða. Endurfjármögnunin var gerð með stuðningi allra núverandi lánveitenda Refresco en framboð á nýju lánsfé var meiri en þörf var á og voru vaxtakjör mjög ásættanleg. Í ljósi erfiðra aðstæðna á lánamörkuðum sýnir þessi niðurstaða greinilega það mikla traust sem fjármálastofnanir hafa á Refresco, stjórnendateymi félagsins og stefnu þess um vöxt og uppbyggingu sem FL Group hefur stutt,” segir jafnframt í tilkynningu FL Group.

Auka eigið fé

Samhliða endurfjármögnuninni munu FL Group og aðrir eigendur Refresco auka við eigið fé Refresco í hlutfalli við eignaraðild. „Endurfjármögnun lána og sterk eiginfjárstaða gerir Refresco kleift að viðhalda stefnu sinni um vöxt, með yfirtökum og innri uppbyggingu félagsins, næstu árin.”

Síðan FL Group leiddi yfirtökuna á Refresco árið 2006 hafa tekjur félagsins um það bil tvöfaldast og nema nú um 1,3 milljörðum evra, um 130 milljörðum ísl. króna. Refresco er nú lang stærst á sínu sviði í Evrópu.

„Það er ánægjulegt að tilkynna um endurfjármögnun Refresco og endanlega samþættingu félaganna fjögurra, sem yfirtekin voru á síðasta ári, inn í rekstur Refresco. Sú staðreynd að umfram framboð var á mögulegu lánsfé, þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður, sýnir að fjárfestar bera mikið traust til FL Group og getu félagsins til að hámarka arðsemi fjárfestinga sinna,” segir Adam Shaw, framkvæmdastjóri London skrifstofu FL Group