Meirihluti Breta vill ganga úr Evrópusambandinu samkvæmt nýrri könnun sem birtist í dag. Í könnuninni voru 21% svarenda óákveðnir, 43% voru fylgjandi útgöngu úr Evrópusambandinu og 36% vildu vera áfram í sambandinu.

Ef eingöngu er tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu þá voru voru 54% fylgjandi útgöngu en 46% vildu vera áfram í sambandinu. Stuðningur við útgöngu hefur aukist, en í síðustu könnun þá sögðu 51% vera fylgjandi útgöngu en 49% vildi vera áfram í sambandinu. Miklar deilur hafa verið í Bretlandi á síðustu árum hvort að landið eigi að vera áfram í sambandinu eða hvort að þeir ættu að segja sig úr því. Úrsögn Bretlands hefur fengið viðurnefnið Brexit (samsett úr Britain og Exit).

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands hefur tilkynnt að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Bretland eigi að standa ennþá innan sambandsins, en gert er ráð fyrir að hún muni fara fram á þess ári. Hann hefur sjálfur sagt að hann sé fylgjandi því að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu, en þó einungis ef samningar nást um breytingu á aðildarsamning Bretlands við sambandið.

Cameron gaf það nýlega út að ráðherra í ríkisstjórninni myndu fá frjálsar hendur til að berjast fyrir þeim málsstað sem þeir kysu, en hann treysti því að þeir myndu gæta þess að halda umræðunni yfirvegaðri og kurteisri.