Flestir eða rétt liðlega 46% treysta Ólafi Ragnar Grímssyni, forseta Íslands, og Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, þegar spurt er um traust til forystufólks í stjórnmálum. MMR gerði könnun á þessu á dögunum. Næst á eftir Ólafi Ragnari og Katrínu kemur Jón Gnarr borgarstjóri en 39,4% segjast treysta honum.

Annað forystufólk í stjórnmálum sem könnunin náði til naut mikils trausts um eða undir fjórðungs þeirra sem tóku afstöðu. Að undanskildum Jóni Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík hefur traust til alls forystufólks í stjórnmálum sem könnunin náði til dregist saman frá síðustu könnun í júní 2013.

Ólafur Ragnar Grímsson var í Dubai.
Ólafur Ragnar Grímsson var í Dubai.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Minnsta traustsins nýtur Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, en 19,6% segjast treysta honum. Næstminnsta traustsins nýtur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann nýtur trausts 23,2% svarenda.

Könnunin var gerð dagana 25.-28. Febrúar og svöruðu 1013 einstaklingar, 18 ára og eldri. Þeir voru allir valdir með slembivali úr hópi álitsgjafa MMR.

Könnun MMR á trausti.
Könnun MMR á trausti.