Tæplega 97% aðspurðra telja ekki réttlætanlegt að samkomulag um eignarhald á Högum/ 1998 við núverandi eigendur feli í sér niðurfellingu skulda.

Þetta er niðurstaða könnunar sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið. Spurt var: „Telur þú réttlætanlegt að samkomulag um eignarhald á Högum/1998 við núverandi eigendur feli í sér niðurfellingu skulda?“

Lítill munur var á milli kynja, þó sögðust fleiri konur, eða 98,4%, að niðurfelling skulda við núverandi eigendur væri ekki réttlætanleg. Þá var að sama skapi lítill munur eftir aldri.

Athygli vekur að flestir þeirra sem töldu réttast að niðurfelling skulda væri réttlætanleg eru stjórnendur og æðstu embættismenn, eða 10,7% en þá eru 8,8% bænda og sjómanna sömu skoðunar.

Þá telja rétt rúmlega 7% aðspurðra sem hafa yfir 800 þúsund krónur á mánuði jafnframt réttlætanlegt að samkomulagið feli í sér niðurfellingu skulda.

Flestir vilja brjóta upp félagið

Þátttakendur voru einnig spurðir hvernig þeim fyndist réttast að Arion Banki (áður Nýja Kaupþing) ráðstafi eignarhaldi á félaginu. Alls töldu tæp 67% aðspurðra að ráðstöfunin færi fram með opnu útboði þar sem hæstbjóðandi fengi félagið.

Þá töldu 13% að unnið yrði að samkomulagi við núverandi eigendur en rúmlega 20% að ráðstöfunin færi fram með einhverjum öðrum hætti.

Hér má sjá könnunina í heild sinni.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .