KleinVision, slóvakíska fyrirtækið á bak við fljúgandi bílinn AirCar, hefur selt tæknina til kínverska fyrirtækisins Hebei Jianxin Flying Car Technology Company. Samkvæmt fréttamiðlinum BBC keypti kínverska fyrirtækið einkaréttinn á framleiðslu bílsins til notkunar á ótilgreindu svæði.

AirCar-bíllinn notast við vél frá BMW og venjulegt eldsneyti og flaug meðal annars í 35 mínútur á milli tveggja slóvakískra flugvalla árið 2021.

Kínverjar hafa gefið töluvert í þegar kemur að rafbílum undanfarin misseri en þjóðin virðist nú vera að færa sig yfir í að þróa fljúgandi bíla. Í síðasta mánuði gerði kínverska fyrirtækið Autoflight tilraunaflug milli borganna Shenzhen og Zhuhai. Flugið tók um það bil 20 mínútur en vanalega myndi taka þrjá klukkutíma að keyra á milli borganna tveggja.

Árið 2023 hlaut kínverska fyrirtækið eHang öryggisvottun frá kínverskum yfirvöldum fyrir rafknúinn flugleigubíl. Bresk stjórnvöld hafa þó einnig sagt að fljúgandi leigubílar gætu orðið tíð sjón á himninum eftir um það bil fimm ár.