Stéttarfélag sem flugmenn Wow air eru meðlimir í, Íslenska flugmannafélagið (ÍFF) hefur sent bréf til Blaðamannafélags Íslands. Í erindinu sakar stjórn félagsins íslenska fréttamiðla um óvægna umfjöllun um Wow air. Þá krefst félagið þess að heimildaröflun íslenskra blaðamanna um málefni Wow air verði könnuð.

Þung fjárhagsstaða Wow air hefur reglulega ratað á síður íslenskra fjölmiðla undanfarna mánuði, en í bréfi ÍFF er þó hvergi tekið fram hvaða hluti eða á hvaða hátt umfjallanirnar hafi verið óvægnar.

Bréf ÍFF má sjá í heild hér að neðan:

Í ljósi óvæginnar umfjöllunar íslenskra fréttamiðla um WOW air undanfarið óskar Íslenska flugmannafélagið ÍFF, stéttarfélag flugmanna WOW air, eftir rannsókn á hlunnindum og sporslum til blaðamanna s.s. frímiðahlunnindum frá helsta samkeppnisaðila WOW air. Við óskum eftir að þetta verði kannað m.t.t. gagnsæis blaðamanna gagnvart lesendum sínum.

Ennfremur viljum við láta kanna heimildaröflun íslenskra blaðamanna um málefni WOW air hverju sinni, þar sem margir þeirra reiða sig m.a. á upplýsingar frá bloggara, búsettum í Svíþjóð, sem er sjálfskipaður helsti sérfræðingur Íslands í flugmálum og oftar en ekki vitnað í órökstuddar hugleiðingar hans.

Með von um sýndan skilning og jákvæð viðbrögð,

Stjórn ÍFF.